Landskönnun á mataræði Íslendinga 2019–2021

Hér eru birtar helstu niðurstöður úr landskönnun á mataræði Íslendinga, 18-80 ára, sem framkvæmd var árin 2019–2021. Embætti landlæknis og Rannsóknastofa í næringarfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands sáu sameiginlega um framkvæmd og úrvinnslu könnunarinnar.

Að verkinu komu einnig sérfræðingar Íslenska Gagnagrunnsins um Efnainnihald Matvæla (ÍSGEM) hjá Matís og sérfræðingar af Menntavísindasviði Háskóla Íslands auk tölvufyrirtæksins Hugsjár sf. Sambærileg rannsókn á mataræði Íslendinga fór síðast fram árin 2010–2011 og þar áður árið 2002.

Stutt samantekt á helstu niðurstöðum

Mataræði landsmanna hefur tekið breytingum frá síðustu landskönnun 2010–2011. Það hefur þó bæði þokast í átt að ráðleggingum um mataræði á vegum embættis landlæknis og fjær þeim, allt eftir því hvaða fæðuflokkar og næringarefni eru skoðuð. Niðurstöðurnar sýna mikinn breytileika í mataræði á milli kynja og aldurshópa.

  • Samanlögð neysla á grænmeti og ávöxtum er að meðaltali um 213 grömm á dag, en mælt er með því að borða að minnsta kosti 500 grömm á dag. Einungis um 2% þátttakenda nær því marki, sem er lægra hlutfall en í síðustu könnun.

  • Rúmlega fjórðungur þátttakenda nær viðmiðum um neyslu á heilkornavörum (70 grömm á dag) á þeim tveimur dögum sem upprifjun á mataræði fór fram.

  • Grænmetisréttur sem aðalréttur er á borðum hjá fjórðungi þátttakenda einu sinni í viku eða oftar og svipaður fjöldi (23%) borðaði hnetur og/eða fræ á þeim dögum sem sólarhringsupprifjun fór fram. Sé miðað við ráðleggingar mættu fleiri neyta þessara matvæla.

  • Fiskneysla stendur í stað milli kannana, er að meðaltali 315 grömm á viku og er eins og áður minnst í yngsta aldurshópnum (18–39 ára). Fiskneysla er sérstaklega lítil meðal yngsta aldurshóps kvenna, en einungis 1% þátttakenda í þessum hópi nær að fylgja ráðleggingum um 2–3 fiskmáltíðir á viku (375 grömm á viku).

  • Dregið hefur úr neyslu á rauðu kjöti um rúm 60 grömm á viku að meðaltali, eða 10%. Um 60% þátttakenda fara yfir viðmið um hámarksneyslu á rauðu kjöti, sem er 500 grömm á viku.

  • Mjólkurneysla hefur minnkað frá síðustu könnun en ostneysla aukist. Breyting hefur orðið á hvaða tegundir drykkjarmjólkur eru notaðar, þar sem neysla á nýmjólk hefur aukist frá síðustu könnun meðan neysla á fituminni mjólkurvörum hefur dregist saman.

  • Neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum hefur minnkað um 40% frá síðustu könnun en neysla á sykurlausum gos- og svaladrykkjum stendur í stað. Neysla orkudrykkja hefur aukist frá síðustu könnun.

  • Heildarorka er óbreytt frá síðustu könnun og er að meðaltali 2044 kílókaloríur á dag. Um 16% heildarorkunnar koma úr sykruðum gos- og svaladrykkjumsælgæti, kökum og kexi.

  • Próteinneysla er rífleg, eða um 18% af heildarorku að meðaltali og hefur ekki breyst frá síðustu könnun. Ráðlagt er að prótein gefi á bilinu 10–20% af heildarorku.

  • Hlutfall fitu af heildarorku hefur aukist að meðaltali frá síðustu könnun, úr 36% í 41%. Það sama á við um hlutfall mettaðrar fitu, sem er nú 16% heildarorkunnar miðað við 14% áður, en ætti að jafnaði ekki að fara yfir 10% heildarorkunnar.

  • Dregið hefur úr hlutfalli heildarorku úr kolvetnum frá síðustu könnun, úr 42% í 37% að meðaltali. Ráðlagt er að kolvetni gefi á bilinu 45–60% af heildarorku.

  • Dregið hefur úr neyslu á trefjaefnum frá síðustu könnun um 6% og er hún nú tæplega 16 grömm á dag að meðaltali. Ráðlagt er að fá að minnsta kosti 25 grömm af trefjaefnum daglega úr heilkornavörum, ávöxtum og grænmeti en einnig baunum og linsum, hnetum og fræjum.

  • Hlutfall orku úr viðbættum sykri hefur minnkað, fer úr 9% í 7% að meðaltali. Mest er hún enn í yngsta aldurshópnum og fær um fjórðungur í þeim hópi yfir 10% orkunnar úr viðbættum sykri. Ráðlagt er að viðbættur sykur gefi minna en 10% af heildarorkunni.

  • Neysla flestra vítamína og steinefna er að meðaltali yfir ráðlögðum dagskammti. Undantekning á því er neysla á D-vítamíni, B-vítamíninu fólati og joði.

  • D-vítamínneysla þeirra sem ekki taka lýsi eða annan D-vítamíngjafa er langt undir ráðlögðum dagskammti (15–20 míkrógrömm á dag) eða 5 míkrógrömm að meðaltali. Rúmlega helmingur þátttakenda (55%) segist taka D-vítamín sem fæðubótarefni reglulega (lýsi, perlur eða töflur) eins og ráðlagt er. Yngsti aldurshópur karla og kvenna fær minnst af D-vítamíni. D-vítamín er mest í feitum fiski og er m.a. nauðsynlegt til að örva upptöku kalks úr fæðunni.

  • Meðalneysla á fólati úr fæðu er undir ráðleggingum, sérstaklega meðal kvenna. Fólat er mikilvægt næringarefni á meðgöngu og skortur getur aukið líkur á alvarlegum skaða í miðtaugakerfi fósturs. Fólat er helst að finna í grænmeti, hnetum, baunum og sumum tegundum ávaxta. Einungis 12% kvenna á barneignaraldri taka inn fæðubótarefni sem inniheldur fólat, en öllum konum á barneignaraldri er ráðlagt að taka fólat sem fæðubótarefni.

  • Meðalneysla á C-vítamíni hefur minnkað um 23% frá síðustu landskönnun. Um helmingur þátttakenda nær ekki ráðlögðum dagskammti af C-vítamíni úr fæðu, sem stafar aðallega af því að dregið hefur úr neyslu á ávöxtum og berjum. C-vítamín er mikilvægt til að mynda bandvef (kollagen) í líkamanum og ýmis hormón og boðefni fyrir heila og taugakerfið.

  • Járnneysla minnkar frá síðustu landskönnun og engin kona á barneignaraldri nær ráðlögðum dagskammti fyrir járn, en hann er hærri fyrir þann hóp (15 milligrömm á dag) en aðra fullorðna (9 milligrömm á dag). Járn er helst að finna í kjöti, fiski, baunum, ertum, linsum, tófú og öðrum sojavörum, dökkgrænu grænmeti, hnetum og heilkornavörum. Járn er mikilvægt næringarefni fyrir súrefnisflutning í blóðinu, ónæmiskerfið og einnig heila- og taugaþroska barna.

  • Joðneysla hefur minnkað um 20% að meðaltali frá síðustu landskönnun og er minnst í yngsta aldurshópi kvenna vegna minni mjólkurneyslu og lítillar fiskneyslu í þeim aldurshópi. Tryggja þarf nægjanlegt magn af joði á meðgöngu þar sem þetta næringarefni er mikilvægt fyrir fósturþroska og þroska barnsins eftir fæðingu.

Hvers vegna Landskannanir á mataræði?

Landskönnun á mataræði safnar ítarlegum upplýsingum um neyslu matvæla og næringarefna hjá úrtaki sem endurspeglar þjóðina á aldrinum 18–80 ára. Þær eru forsenda þess að hægt sé að fylgjast með þróun á mataræði Íslendinga. Niðurstöðurnar nýtast einnig við að meta þörf á lýðheilsuaðgerðum vegna of lítillar eða of mikillar neyslu einstakra fæðuflokka eða næringarefna og annarra efna sem berast með mat.

Holl og fjölbreytt fæða er mikilvæg fyrir heilsu og vellíðan frá degi til dags og getur dregið úr líkum á langvinnum sjúkdómum, snemmbærum dauðsföllum og glötuðum góðum æviárum á Íslandi (LANCET grein). Það er því mikilvægt að fylgjast reglulega með mataræði landsmanna. Þá er ekki einungis átt við val á matvælum heldur einnig hver orkuinntakan er og neysla á mismunandi næringarefnum og öðrum efnum sem berast með mat. Niðurstöður landskönnunar eru hér bornar saman við ráðleggingar um heilsusamlegt mataræði, viðmiðunargildi fyrir áætlaða orkuþörf, ráðleggingar um hlutfallslega skiptingu orkuefna (próteina, fitu, kolvetna, trefja) og ráðlagða dagskammta af vítamínum og steinefnum.

Landskönnun er nákvæmasta aðferðin til að meta mataræði landsmanna, þótt reglulegar vaktanir á einstökum matvælum, bæði innlendar og samnorrænar, geti gefið vísbendingar um stöðuna. Þá hefur embætti landlæknis birt upplýsingar um fæðuframboð sem er áhugavert að bera saman við niðurstöður landskönnunar. Fæðuframboðstölur ná í mörgum tilfellum til lítið unninnar vöru og taka ekki tillit til hversu mikils er neytt og hversu mikið af matnum fer í ruslið. Fæðuframboðstölur segja því lítið til um raunverulega neyslu, en veita gagnlegar upplýsingar til að fylgjast með þróun á mataræði þjóðarinnar yfir lengri tíma.

Hvernig fór landskönnun fram?

Tveimur aðferðum var beitt samtímis til að meta mataræðið, annars vegar tvær sólarhringsupprifjanir á neyslu og hins vegar tíðnispurningalisti. Það er sama aðferðafræði og var beitt í síðustu landskönnun 2010–2011 og eru niðurstöðurnar því vel samanburðarhæfar. Haft var samband við þátttakendur símleiðis í tvígang með þriggja vikna millibili.

Sólarhringsupprifjun var framkvæmd á þann hátt að þjálfaðir spyrlar aðstoðuðu þátttakendur á kerfisbundinn hátt við að rifja upp hvað þeir borðuðu og drukku á 24 klukkustunda tímabili. Notað var gagnreynt kerfi til að tryggja að sem minnst gleymdist af mat, drykkjum og fæðubótarefnum sem þátttakendur höfðu neytt deginum áður. Viðtöl voru skipulögð þannig að hlutfall virkra daga og helgardaga væri sem réttast, til að ekki kæmi til skekkja í túlkun niðurstaðna. Spyrlarnir leiddu einnig þátttakendur í gegnum tíðnispurningalista. Þá var spurt um tíðni neyslu ýmissa matvæla og matvælaflokka sem talið var mikilvægt að fá nákvæmari upplýsingar um eða sem margir neyta sjaldnar en daglega, svo sem D-vítamín og fisk. Þá var í fyrra viðtali einnig spurt um menntun, atvinnu, hreyfingu, hæð og þyngd, en upplýsingar um aldur, kyn og búsetu fengust úr þjóðskrá.

Forritið ICEFOOD, sem er sérhannað fyrir rannsóknir á mataræði, notar ÍSGEM sem grunn að næringarefnaútreikningum. Til að reikna út neyslu næringarefna í landskönnuninni voru nýttir tveir gagnagrunnar, annars vegar íslenskur gagnagrunnur um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) og hins vegar uppskriftagrunnur með 735 matvælum og uppskriftum sem byggður er á ÍSGEM. Til að meta stærð máltíða fengu þátttakendur sent skammtastærðarhefti með myndum af fjórum mismunandi skammtastærðum af 53 algengum réttum. Slík nákvæmni er mikilvæg til að geta lagt mat á neyslu matvæla og næringarefna og gefið mynd af heildarneyslu landsmanna. Grundvöllur góðra landskannana þar sem hægt er að meta neyslu næringarefna, felst í reglulegri uppfærslu á gagnagrunni um efnainnihald matvæla. Skortur hefur verið á fjármagni til að uppfæra ÍSGEM, sérstaklega þegar kemur að mælingum á íslenskum matvælum. Það ber því að taka niðurstöðum um neyslu vítamína og steinefna með ákveðnum fyrirvara.

Tvær sólarhringsupprifjanir gefa takmarkaðar upplýsingar um almenna einstaklingsbundna neyslu, vegna þess að við neytum ýmissa fæðutegunda mun sjaldnar en daglega. Því var með aðstoð tíðnispurningalistans notað nýtt alþjóðlegt staðlað forrit til að áætla almenna dreifingu á neyslu fæðutegunda og mismunandi næringarefna. Allar niðurstöður úr landskönnuninni eiga því við um hópa fólks (e. group level) en ekki einstaklinga. Niðurstöður fyrir næringarefni eru birtar án fæðubótarefna, en þó er lýsi á fljótandi formi tekið með í útreikningum á orku og orkuefnum þar sem hefð er fyrir því í fyrri könnunum. Þá eru birtar upplýsingar um magn D-vítamíns auk fólats fyrir konur á barneignaraldri þar sem tekið er tillit til neyslu allra fæðubótarefna, enda eru þetta einu næringarefnin sem ráðlagt er að taka sem fæðubótarefni. Niðurstöðurnar eru birtar sem hundraðshlutamörk (e. percentiles) sem  reiknuð eru með „Multiple source method“ (MSM) og meðaltali fyrir orkuefni, næringarefni og fæðuflokka/tegundir sem spurt var um í tíðnispurningalistanum. Fyrir þær fæðutegundir sem ekki var spurt um sérstaklega í tíðnispurningalistanum voru eingöngu notaðar upplýsingar úr tveggja daga skráningu. Það gerir niðurstöðurnar aðeins ónákvæmnari þar sem ekki er hægt að reikna dreifingu á sama hátt. Þetta á við um niðurstöður fyrir heilkorn, hnetur, baunir og rautt kjöt. Notað var Shapiro-Wilk prófið til að meta normaldreifingu gagna. Flestar niðurstöðurnar voru ekki normaldreifðar og því var Kruskal-Wallis próf notað til að meta hvort marktækur munur væri á dreifingu milli hópa (P <0.05). Niðurstöður eru sýndar sem dreifing á neyslu matvæla og næringarefna í hundraðshlutum (efstu/lægstu 5%, miðgildi og efstu/lægstu 25%). Þrátt fyrir að niðurstöðurnar séu ekki normaldreifðar er einnig gefið upp meðaltal til að bera saman við niðurstöður landskönnunar 2010–2011.

Hverjir tóku þátt?

Alls voru þátttakendur 822 á aldrinum 18–80 ára. Kynjahlutfall var nokkuð jafnt (52% konur, 48% karlar) og flestir þátttakenda voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu (64%), sem er í samræmi við þjóðskrá. Þátttökuhlutfall eftir aldri var einnig í samræmi við úrtakið úr þjóðskrá fyrir utan yngsta aldurshópinn (18–39 ára) sem erfiðara var að ná til.

Valið var 2000 manna úrtak af handahófi úr þjóðskrá. Þar sem um var að ræða símakönnun var eingöngu haft samband við þá 1545 einstaklinga sem voru með skráð símanúmer og heimilisfang. Boð um þátttöku var fyrst sent með bréfi og því fylgt eftir með símtali. Af þeim 1545 sem var boðin þátttaka í könnuninni luku 781 báðum viðtölunum, eða 51%. Þar sem illa gekk að ná til yngsta aldurshópsins (18–39 ára), var annað úrtak dregið út og lauk 41 þátttakandi úr þeim hópi báðum viðtölum. Heildarfjöldi þátttakenda var því 822.
Í töflu 1 má sjá hvernig þátttaka skiptist eftir aldri og kyni.


Þátttakendur voru spurðir hvort þeir fylgdu ákveðnu mataræði. Flestir (83%) svöruðu því neitandi. Af þeim sem svöruðu játandi sögðust 55 einstaklingar vera á lágkolvetnamataræði (7% allra þátttakenda), 32 fasta reglulega (tæplega 4%), 12 vera á grænmetisfæði (e. vegetarian; rúmlega 1%), 10 fylgja grænkeramataræði (e. vegan; rúmlega 1%), 10 vera með fæðuofnæmi/óþol (rúmlega 1%) og fjórir nefndu annað mataræði (0,5%). Samtals voru þetta 123 eintaklingar, um 15% þátttakenda. Í þessari skýrslu er þátttakendum lýst óháð tegund mataræðis.

Hvers vegna er mataræði borið saman við ráðleggingar embættis landlæknis?

Ráðleggingar um mataræði byggja á bestu vísindalegu þekkingu hvers tíma um mataræði sem eflir vellíðan og heilsu til bæði skamms og langs tíma. Þessar ráðleggingar henta flestum landsmönnum þótt á því séu undantekningar.

Íslenskar ráðleggingar um mataræði byggja að miklu leyti á norrænum næringarráðleggingum þar sem ritrýndar vísindagreinar eru lagðar til grundvallar en einnig er tekið tillit til hefða og venja í landinu. Þær leggja grunninn að æskilegu fæðuvali, en mikilvægt er að taka fram að það er hægt að setja saman hollar og næringarríkar máltíðir á margan hátt, sem henta ólíkum einstaklingum.
Í ráðleggingunum er lögð áhersla á mataræðið í heild sinni frekar en einstök næringarefni, að fólk borði fjölbreyttan mat í hæfilegu magni, hafi reglu á máltíðum og njóti þess að borða. Þannig ættu sem flestir að fá þau næringarefni sem líkaminn þarfnast. Rík áhersla er lögð á mat úr jurtaríkinu sem er trefjaríkur frá náttúrunnar hendi, svo sem grænmeti, ávexti, ber, hnetur, fræ, heilkornavörur, baunir og linsur, en einnig á feitan og magran fisk, olíur, fituminni mjólkurvörur og kjöt í hófi ásamt vatni til drykkjar. Mælt er með að takmarka neyslu á unnum matvörum sem innihalda oft mikið af mettaðri fitu, sykri eða salti. Sem dæmi má nefna gosdrykki, sælgæti, kex, kökur, snakk, skyndibita og unnar kjötvörur. Með þessu mataræði er talin minni hætta á flestum langvinnum sjúkdómum auk þess sem líðan frá degi til dags er betri þegar næringarefnaþörfum líkamans er mætt. Meiri áhersla er lögð á gæði fitu og kolvetna frekar en magn hvors um sig. Það skiptir fyrst og fremst máli úr hvaða mat við fáum fituna og kolvetnin.

Þar sem aukin neysla á fæðu úr jurtaríkinu og minni neysla á rauðu kjöti hjálpar til við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda er það einnig jákvætt fyrir umhverfið ef fleiri ná að fylgja ráðleggingunum.

Grundvöll ráðlegginga um mataræði og ráðlagða dagskammta næringarefna með ítarlegri upplýsingum er að finna hér. Næsta útgáfa norrænna næringarráðlegginga er áætluð árið 2023 og er vinna við gerð þeirra í fullum gangi. Meira tillit verður tekið til sjálfbærni sem snýr meðal annars að því að minnka kolefnisspor tengt mataræði. Íslenskar ráðleggingar verða endurskoðaðar í kjölfarið og verða niðurstöður úr þessari landskönnun nýttar í þá vinnu.

Hafði COVID-19 einhver áhrif á landskönnun?

COVID-19 heimsfaraldurinn truflaði framkvæmdina á landskönnuninni sem hófst árið 2019 og var gert hlé á úthringingum frá miðjum mars 2020 og fram í júnímánuð sama ár.

Þá var haldið áfram að hringja og einni spurningu bætt við, sem snéri að því hvort þátttakendur hefðu breytt mataræði sínu í kjölfar COVID-19 faraldursins og þá hvaða breytingar hefðu átt sér stað. Gögnum sem safnað var á tímabilinu september 2019 út febrúar 2020 voru einnig borin saman við gögn sem safnað var á sama tíma árið eftir eða frá september 2020 og út febrúar 2021. Niðurstöðum er lýst í sérstökum kafla um heimsfaraldurinn í lok þessa yfirlits.

Þegar landskönnun hófst á ný í júní 2020 eftir hlé vegna COVID-19 var spurt hvort COVID-19 faraldurinn hefði haft áhrif á mataræði þátttakenda. Um 19% þáttakenda svöruðu þá játandi, ýmist þannig að þátttakendur sögðust borða óhollari mat eða hollari og var það svipað hlutfall í báðar áttir. Við paraðan samanburð (tímabil, aldur, kyn og búseta) á orku- og næringarefnainnihaldi mataræðis þeirra sem tóku þátt í landskönnun áður en COVID-19 skall á (september 2019 út febrúar 2020) borið saman við sama tímabil eftir að faraldurinn hófst (september 2020 út febrúar 2021) sást enginn marktækur munur. Í paraða samanburðinum var einnig borin saman neysla á bæði ávöxtum og grænmeti. Enginn munur fannst á milli þátttakanda sem tóku þátt í könnuninni fyrir COVID-19 og þátttakendum sem tóku þátt eftir að faraldurinn hófst.

Landskönnun í samanburði við fæðuframboðstölur og vaktanir

Gott samræmi er í niðurstöðum landskönnunar á mataræði við nýlegar vaktanir á einstökum matvælum og fæðuframboðstölum fyrir flesta fæðuflokka nema sælgæti. Þar sýna fæðuframboðstölur nánast þrisvar sinnum meira framboð en tölur úr landskönnun. Hvort börn og unglingar undir 18 ára aldri borða margfalt magn af sætindum á við þá sem eldri eru skal ósagt látið, en niðurstöðurnar benda til vanmats á sælgæti í landskönnun.