Fæðuflokkar

Landskönnun á mataræði Íslendinga 2019–2021

FÆÐUFLOKKAR

GRÆNMETISNEYSLA STENDUR Í STAÐ OG NÁNAST ENGINN FYLGIR RÁÐLEGGINGUM

Grænmetisneysla stendur í stað milli áranna 2010–2011 og 2019–2021 og er að meðaltali um 114 grömm sem samsvarar um einum og hálfum tómat. Í heildina er neyslan nokkuð jöfn milli kynja, en munur er á milli aldurshópa karla þar sem grænmetisneysla er mest hjá yngsta aldurshópnum. Um 20% grænmetisneyslunnar er neysla á blönduðu salati sem inniheldur ýmist jöklasalat, kínakál, klettasalat eða spínat ásamt gúrku, tómat og papriku. Vinsælustu grænmetistegundirnar eru tómatar, gúrka og gulrætur. Neysla flestra þátttakenda er langt frá ráðleggingum sem eru að minnsta kosti 250 grömm á dag, en einungis 1,5% þátttakenda ná því marki. Til að sá fjórðungur þátttakenda sem borðar mest af grænmæti nái ráðleggingunni, þyrftu þeir þó aðeins að bæta við sig sem nemur meðalstórri gulrót á dag. Enda þótt neyslan sé almennt lág segjast einungis um 2% þátttakenda aldrei borða grænmeti.

Mynd 1. Dreifing og meðaltal grænmetisneyslu 201011 og 201921
Helmingur þátttakenda neytti meira en 108 gramma af grænmeti á dag árin 20192021. Þau 5% sem neyttu minnst af grænmeti borðuðu minna en 44 grömm á dag, sem samsvarar hálfum tómati, en þau 5% sem neyttu mest af grænmeti borðuðu rúmlega 200 grömm á dag.

DREGIÐ HEFUR ÚR NEYSLU ÁVAXTA OG BERJA

Ávaxta- og berjaneysla hefur minnkað um 18% frá síðustu könnun og hvað mest meðal ungra kvenna. Meðalneysla á ávöxtum og berjum er um 118 grömm á dag sem samsvarar einum litlum banana, en meðalneyslan var 119 grömm á dag 2010–2011. Vinsælustu ávextirnir eru bananar og epli og vinsælustu berin eru jarðarber og bláber. Í ráðleggingum um mataræði er mælt með að neyta 250 gramma af ávöxtum og berjum á dag og ná rúmlega 4% þátttakenda því marki nú, borið saman við 14% þátttakenda í síðustu landskönnun árin 2010–2011. Í heildina borða konur aðeins meira af ávöxtum en karlar og hafa elstu konurnar þar vinninginn og borða 40% meira af ávöxtum en yngstu konurnar.

Mynd 2. Dreifing og meðaltal ávaxta- og berjaneyslu 201011 og 201921

Helmingur þátttakenda neyttu meira en 77 gramma af ávöxtum og berjum á dag árin 20192021, en það samsvarar ¾ úr appelsínu. Þau 5% sem neyttu minnst af ávöxtum og berjum borðuðu 16 grömm eða minna á dag en þau 5% sem neyttu mest af ávöxtum og berjum neyttu meira en 239 gramma á dag.

EINN AF HVERJUM 50 ÞÁTTTAKENDUM FYLGIR RÁÐLEGGINGUNNI UM FIMM Á DAG

Samanlögð neysla á grænmeti og ávöxtum er að meðaltali um 213 grömm á dag, sem er nokkuð lægra en sást í síðustu könnun, eða 238 grömm í síðustu könnun. Þetta er innan við helmingur af því sem ráðlagt er, en mælt er með því að borða að minnsta kosti 500 grömm á dag af grænmeti, ávöxtum og berjum. Aðeins um 2% þátttakenda ná því marki, en konur á aldrinum 60–80 ára standa sig best. Neyslan er hér svipuð milli kynja og aldurshópa.

Mynd 3. Dreifing og meðaltal grænmetis-, ávaxta- og berjaneyslu 201011 og 201921
Helmingur þátttakenda neytti meira en 197 gramma af grænmeti, ávöxtum og berjum á dag árin 20192021. Þau 5% sem neyttu minnst af grænmeti, ávöxtum og berjum borðuðu tæplega 70 grömm á dag en þau 5% sem neyttu mest af grænmeti, ávöxtum og berjum neyttu meira en 428 gramma á dag.

GJARNAN MÆTTI BORÐA MEIRA AF HEILKORNAVÖRUM

Samkvæmt ráðleggingum er mælt með að minnsta kosti tveimur skömmtum af heilkornavörumHeilkornavörur ná yfir vörur af ýmsum toga, svo sem heila hafra, bygg, rúg, heilhveiti og hýðishrísgrjón og vörur unnar úr þeim svo sem heilkorna pasta og heilkornabrauð. á dag eða um 70 grömmum. Um 27% þátttakenda náðu því marki á þeim tveimur dögum sem sólahringsupprifjunin fór fram. Meðalneysla var 56 grömm á dag, en um 30% þátttakenda neyttu engra heilkornavara þá tvo daga sem spurt var um í sólarhringsupprifjun. Ekki var hægt að skoða dreifingu neyslunnar fyrir heilkornavörur nema fyrir heilkornabrauð, sem spurt var um sérstaklega í tíðnispurningum. Helmingur þátttakenda borðar nú meira en 20 grömm af heilkornabrauði á dag, sem samsvarar rúmlega hálfri brauðsneið, en þau 5% sem neyta mest af heilkornabrauði neyta tæplega 60 gramma á dag, eða rúmlega einnar og hálfrar brauðsneiðar. Ekki var munur á neyslu heilkornabrauðs milli kynja, en yngri aldurshópar, bæði karla og kvenna, borðuðu minna heilkornabrauð en elsti hópurinn.

PRÓTEINGJAFAR

BAUNIR og LINSUR, HNETUR og FRÆ MÆTTI AUKA Í FÆÐI LANDSMANNA

Tæplega helmingur (47%) þátttakenda sögðust neyta grænmetisréttaAðalréttur samsettur eingöngu úr afurðum úr jurtaríkinu. sem aðalrétta, sem er svipað hlutfall og í síðustu landskönnun. Hlutfallið var einnig svipað milli kynja þó að konur séu í meirihluta þeirra sem neyta mest af grænmetisréttum.

Mynd 4. Dreifing og meðaltal neyslu grænmetisrétta sem aðalréttar 201921
Einungis 26% þáttakenda borðuðu grænmetisrétti sem aðalrétt oftar en einu sinni í viku samkvæmt tíðnispurningalista, en þau 5% sem neyttu mest af grænmetisréttum sem aðalréttar neyttu rúmlega 600 gramma á viku eða meira. Hér var ekki hægt að gera samanburð við fyrri könnun.

Svipað var uppi á teningnum þegar horft var til neyslu á baunum og linsum sérstaklega og hnetum og fræjum. Á þeim tveimur dögum sem sólarhringsupprifjun fór fram borðuðu 83% engar baunir eða linsur og 77% borðuðu hvorki hnetur né fræ. því var ekki hægt að skoða dreifingu á neyslu á hefðbundinn hátt, en ekki var spurt um þessi matvæli í tíðnispurningalistanum. Ekki var marktækur munur milli aldurshópa og kynja dagana tvo fyrir utan að konur í yngsta aldurshópnum notuðu marktækt meira af baunum og linsum en aðrir hópar. Í ráðleggingum um mataræði er mælt með að nota baunarétti sem leið til að fækka kjötmáltíðum. Þá er einnig mælt með um 30 grömmum af hnetum á dag en innan við 5% þátttakenda náðu að fylgja þeirri ráðleggingu í tveggja daga skráningunni. Meðalneysla á hnetum var um 5 grömm á dag.

FISKUR OG ANNAÐ SJÁVARFANG MÆTTI VERA VINSÆLLA MEÐAL UNGRA KVENNA

Fiskneysla stendur í stað milli kannana og er að meðaltali 315 grömm á viku. Eins og áður er neyslan minnst í yngsta aldurshópnum (18–39 ára) sem borðar helmingi minna af fiski en þeir eldri (60–80 ára). Samkvæmt ráðleggingum um mataræði er mælt með að borða 2–3 fiskmáltíðir á viku (375 grömm á viku), en rúmlega þriðjungur þátttakenda náði því markmiði. Þá er ráðlagt að ein af fiskmáltíðunum sé feitur fiskur, eins og t.d. lax og bleikja, en um 12% þátttakenda náðu því viðmiði á skráningardögunum tveimur. Um 5% þátttakenda segjast aldrei borða fisk eða skelfisk sem aðalrétt samkvæmt tíðnispurningalista. Karlar eru líklegri til að fylgja ráðleggingunum, ekki aðeins vegna stærri skammta heldur einnig vegna tíðari fiskneyslu. Yngsti aldurshópur kvenna er sér á báti, en einungis tæplega 1% þátttakenda nær að fylgja ráðleggingum. Mest er borðað af ýsu og þorski (42%), þá feitum fiski, svo sem laxi og bleikju, (37%) og loks öðrum fiski og sjávarfangi (18%), en minnst er borðað af harðfiski (3%).

Mynd 5. Dreifing og meðaltal fiskneyslu og annars sjávarfangs 201011 og 201921
Helmingur þátttakenda neytti meira en tæplega 300 gramma af fiski á viku árin 20192021. Þau 5% sem neyttu minnst af fiski borðuðu tæplega 80 grömm á viku en þau 5% sem neyttu mest af fiski neyttu meira en 620 gramma á viku.

NEYSLA Á KJÖTI OG KJÖTVÖRUM FER MINNKANDI

Með kjöti og kjötvörum er átt við rautt kjöt (nauta-, lamba-, svína-, hrossa- og hreindýrakjöt), allt fuglakjöt og villibráð, hvalkjöt og sjófugl, jafnt ferskar og unnar vörur, ásamt innmat. Dregið hefur úr heildarneyslu á kjöti og kjötvörum frá síðustu landskönnun, úr 910 grömmum að meðaltali á viku í 823 grömm, eða um 10%. Aðeins um 2% þátttakenda borða aldrei kjöt. Karlar borða mun meira kjöt en konur og á það við flestar tegundir kjöts. Þá borða ungir karlar áberandi mest af kjöti, en neyslan fer minnkandi með aldri. Síðan síðasta könnun var gerð hefur meðalneysla á alifuglakjöti aukist, úr 189 grömmum á viku í 245 grömm á viku.

Mynd 6. Dreifing og meðaltal neyslu á kjöti og kjötvörum 201011 og 201921
Þau 5% sem neyttu minnst af kjöti og kjötvörum borðuðu minna en 284 grömm á viku, eða sem samsvarar tæplega tveimur kjötmáltíðum eða minna á viku, en þau 5% sem neyttu mest af kjöti og kjötvörum borðuðu um 1,5 kíló eða meira á viku, sem samsvarar meira en einni kjötmáltíð á dag.

Samkvæmt ráðleggingum um mataræði ætti neysla á rauðu kjöti(nauta-, lamba-, svína-, hrossakjöti og villibráð, bæði unnum kjötvörum og óunnum vörum) ekki að fara yfir 500 grömm á viku. Um 60% þátttakenda fara yfir þau viðmið.

Mynd 7. Dreifing og meðaltal neyslu á rauðu kjöti 201921
Þau 5% sem neyttu minnst af rauðu kjöti borðuðu minna en 208 grömm á viku, eða sem samsvarar fjórum pylsum á viku, en þau 5% sem neyttu mest af rauðu kjöti borðuðu um 1 kíló eða meira á viku. Hér var ekki hægt að bera saman við fyrri könnun.

 

Dregið hefur úr neyslu á rauðu kjöti um 10% frá því í síðustu könnun og fer meðalneyslan úr 644 grömmum á viku í 578 grömm á viku. Hér er munurinn þó mikill milli þátttakenda og þau 5% sem neyta mest af rauðu kjöti borða rúmlega 1 kg á viku, sem samsvarar um einni kjötmáltíð á dag. Hér er einnig verulegur munur á milli kynja þar sem karlar borða mun meira af rauðu kjöti (736 grömm á viku) en konur (435 grömm á viku).  

Sé einungis horft til neyslu á unnum kjötvörum, en undir þær falla allt reykt og saltað kjöt og kjötálegg, pylsur og farsvörur, er verulegur munur á neyslu karla og kvenna þar sem karlar borða tvöfalt magn á við konur, eða 282 grömm á móti 146 grömmum á viku. Karlar á miðjum aldri borða þó minnst af unnum kjötvörum borið saman við bæði eldri og yngri karla.

Mynd 8. Dreifing og meðaltal neyslu á unnum kjötvörum 201921
Um helmingur þátttakenda neytti meira en 207 gramma af unnum kjötvörum á viku, sem samsvarar um fjórum vínarpylsum. Hér var ekki hægt að bera saman við fyrri könnun.

Karlar á aldrinum 60–80 ára borða langmest af unnum kjötvörum. Þau 5% karla sem neyta mest í þessum hópi borða um 580 grömm á viku en þau 5% sem borða minnst af unnum kjötvörum borða minna en 101 grömm á viku, sem er um tvær pylsur. Samkvæmt ráðleggingum er mælt með að takmarka neyslu á unnum kjötvörum eins og kostur er. Undir þennan flokk fellur einnig innmatur. Meðalneysla á innmat er nú 36 grömm á viku en var 77 grömm á viku í síðustu landskönnun. Það eru helst karlar í elsta aldurshópnum sem borða innmat (95 grömm á viku).

Í umræðu um próteingjafa er mikilvægt að nefna eggjaneyslu, en hún hefur aukist um rúmlega þriðjung frá síðustu könnun og er nú um 20 grömm á dag, eða tæplega tvö og hálft egg á viku.

DREGUR ÚR NEYSLU Á MJÓLK OG MJÓLKURVÖRUM

Neysla á mjólk og mjólkurvörum (ostur og smjör ekki meðtalið) er að meðaltali 245 grömm á dag, sem er 50 grömmum (hálfum desilítra) minna en í síðustu könnun. Þá hefur þeim fjölgað sem aldrei nota mjólk og mjólkurvörur aðrar en ost, úr 6% í 12%. Um 32% þátttakenda ná ráðleggingunni um 500 grömm af mjólk og mjólkurvörum á dag ef ostur er tekinn með en hann getur komið í stað mjólkurvara að hluta til (25 grömm af osti reiknast þá sem einn skammtur eða 250 grömm af mjólk). Karlar nota meira af mjólk og mjólkurvörum en konur, en verulegur munur er einnig milli aldurshópa karla þar sem heildarmjólkurneysla elsta aldurshóps karla er um 57% hærri en hjá þeim yngsta.

Mynd 9. Dreifing og meðaltal neyslu á mjólk og mjólkurvörum (ostur og smjör ekki meðtalið) 201011 og 201921
Helmingur þátttakenda neytti meira en 200 gramma af mjólk og mjólkurvörum á dag 20192021, en það samsvarar tæplega einum skammti af mjólk á dag. Þau 5% sem neyttu minnst af mjólk og mjólkurvörum neyttu minna en 34 gramma á dag, eða sem samsvarar tveimur matskeiðum, en þau 5% sem neyttu mest af mjólk og mjólkurvörum neyttu meira en 600 gramma á dag, sem samsvarar rúmlega 2 skömmtum af mjólk eða jógúrt.

¹ Nýmjólk og önnur drykkjarmjólk með >3,5% fituinnihaldi. ² Léttmjólk og önnur drykkjarmjólk með 1,5–2,0% fituinnihaldi. ³ Undanrenna og önnur drykkjarmjólk með <1,0% fituinnihaldi. ⁴ Allar sýrðar mjólkurvörur, sýrður rjómi og skyr. ⁵ Allar bragðbættar mjólkurvörur með viðbættum sykri. ⁶ Allar mjólkurvörur með sætuefnum.

Dregið hefur úr neyslu á drykkjarmjólk (nýmjólk, léttmjólk, undanrennu og fjörmjólk) frá síðustu landskönnun. Þá var hún að meðaltali 186 grömm á dag en er nú um 156 grömm. Helsta breytingin er sú að hlutur fituminni drykkjarmjólkur minnkar um 36%, en nýmjólkin eykst um 27% og fer úr því að vera tæpur þriðjungur af drykkjarmjólk í síðustu landskönnun í það að vera tæpur helmingur nú. Ekki er marktækur munur milli kynja eða aldurshópa nema þegar kemur að sýrðum mjólkurvörum. Þar er neysla yngri karla minni en þeirra eldri. Karlar borða líka meira af sykruðum mjólkurvörum en konur, eða 62 grömm á dag samanborið við 40 grömm hjá konum.

Meðalneysla á osti hefur aukist frá síðustu landskönnun um 20%. Neyslan var um 35 grömm á dag í síðstu könnun en er nú 42 grömm á dag. Aukningin gæti að hluta falist í aukinni þyngd á sneiddum osti, sem var 15 grömm á sneið í síðustu landskönnun en nú er sneiðin 20 grömm. Þá borða 11% þátttakenda aldrei ost.

VATN ER ALGENGASTI DRYKKURINN

Eins og í síðustu tveimur landskönnunum er vatn algengasti drykkur á Íslandi. Af þeim tæplega 2,5 lítrum vökva sem koma úr mat og drykk á dag er kranavatn og sódavatn 32%, eða um 750 millilítrar á dag. Yngstu aldurshóparnir drekka mest af vatni.

1 Gos- og svaladrykkir ásamt íþrótta og orkudrykkjum og hreinum söfum.
2 Kornmatur (3%), áfengi (5%), ávextir og ber (3%), kjöt og kjötvörur (2%), sósur, súpur o.fl.
Mynd 10. Hlutfallslegt framlag fæðuflokka til vatnsneyslu

Kaffidrykkja er óbreytt frá síðustu landskönnun, 325 millilítrar á dag, og drekka karlar meira kaffi en konur. Yngsti aldurshópurinn (18–39 ára) drekkur mun minna kaffi en þeir eldri, en þetta er sá hópur sem drekkur mest af orkudrykkjum.

Konur drekka helmingi meira te en karlar, eða um 50 millilítra (sem er um hálfur desilítri) á dag. Neysla próteindrykkja er nánast óbreytt og er nú 12 grömm á dag. Neyslan er aðallega í yngsta aldurshópnum (18–39 ára) þar sem 13% notuðu þessa drykki könnunardagana og er meðalneyslan í þeim aldurshópi um 21 gramm á dag.

NÆRINGARSNAUÐARI VÖRUR

NEYSLA Á SYKRUÐUM GOS- OG SVALADRYKKJUM Á NIÐURLEIÐ

Verulega hefur dregið úr neyslu á sykruðum gos- og svaladrykkjum, sem hefur minnkað um tæp 40% frá síðustu könnun, úr 157 millilítrum á dag í 95 millilítra á dag, eða 665 millilítrar á viku. Um 55% þátttakenda segjast aldrei drekka sykraða gos- og svaladrykki, þrátt fyrir að nokkrir þeirra greini frá neyslu slíkra drykkja á skráningardögum. Karlar drekka næstum helmingi meira af sykruðum drykkjum en konur og helstu neytendur eru ungir karlar (18–39 ára), en munur er á neyslu þessara drykkja milli allra aldurshópa. Um 40% ungra karla drekka meira en einn lítra af sykruðum gosdrykkjum á viku, eða að minnsta kosti 140 millilítra á dag.

Mynd 11. Dreifing og meðaltal neyslu á sykruðum gos- og svaladrykkjum 201011 og 201921

NEYSLA Á SYKURLAUSUM GOS- OG SVALADRYKKJUM STENDUR Í STAÐ

Meðalneysla á sykurlausum gos og svaladrykkjum stóð í stað milli kannananna og er 92 millilítrar á dag eða 644 millilítrar á viku. Um 42% þátttakenda drekka sykurlausa gos- og svaladrykki samkvæmt tíðnispurningalista.

Mynd 12. Dreifing og meðaltal neyslu á sykurlausum gos- og svaladrykkjum 2010–11 og 2019–21

Þegar kemur að sykurlausum gos- og svaladrykkjum er neyslunni aðallega haldið uppi af konum á miðjum aldri (40–59 ára) ásamt ungum körlum (18–39 ára). Þau 5% með mestu neysluna í þessum aldurshópum drekka um 800 millilítra á dag, eða fjögur glös af sykurlausum gos- og svaladrykkjum á dag.

NEYSLA ORKUDRYKKJA HEFUR AUKIST VERULEGA

Neysla orkudrykkja er nú að meðaltali 31 millilítri á dag en var 4 millilítrar á dag 2010–2011. Um 11% þátttakenda fengu sér slíkan drykk á könnunardegi samanborið við 1% í síðustu könnun. Í heildina drekka þó 80% þátttakenda aldrei orkudrykki, og neyslan var svo lítil meðal þátttakenda í elsta aldurshópnum að ekki var unnt að reikna dreifingu hennar. Það er yngsti aldurshópurinn sem dregur vagninn, aðallega ungir karlmenn, en þau 5% sem drekka mest drekka að minnsta kosti 322 millilítra á dag. Það samsvarar tæplega einni dós (330 millilítrum). Mesta aukningin hefur verið í yngsta aldurshópi kvenna (18–39 ára) þar sem neyslan er nú að meðaltali 66 millilítrar á dag, en var 2 millilítrar á dag í síðstu landskönnun.

KAFFI ER ENN AÐALKOFFÍNGJAFI FULLORÐINNA  – 18 ÁRA OG ELDRI 

Fjórðungur þátttakenda neytir koffíns sem nemur að minnsta kosti einum kaffibolla á dag (100 milligrömmum af koffíni). Koffínneysla er meiri meðal karla en kvenna og marktækur munur er á milli aldurshópa þar sem fólk á miðjum aldri (40–59 ára) á vinninginn. Þau 5% sem neyta mest af koffíni neyta sem svarar koffínmagni í fjórum kaffibollum á dag, sé miðað við allan hópinn, en það er nálægt alþjóðlegum viðmiðunarmörkum um áhættulausa neyslu (400 milligrömm/dag, EFSA).

Mynd 13. Hlutfallslegt framlag fæðuflokka til koffínneyslu þátttakenda, 1839 ára og 4059 ára

Nánast allt koffín hjá elsta aldurshópnum (60–80 ára) kemur úr kaffi, te og kakó, eða 97%.Kaffi er enn helsti koffíngjafinn, en um 80% af koffíni hjá 18 ára og eldri kemur þaðan þótt orkudrykkir skipi þar stærri sess en áður ásamt kóladrykkjum sem innhalda minna koffín.

 

SÆLGÆTI, ÍS, SÆTABRAUÐ, KÖKUR OG KEX ERU VINSÆLAR VÖRUR

Sælgætisneysla stendur í stað frá fyrri könnun og er um 114 grömm á viku að meðaltali, en 9% hópsins borðar aldrei sælgæti. Konur borða meira sælgæti en karlar og yngri hóparnir borða marktækt meira sælgæti en sá elsti.  

Mynd 14. Dreifing og meðaltal sælgætisneyslu 2010–11 og 2019–21
Helmingur þátttakenda borðaði í það minnsta rúmlega 83 grömm af sælgæti á viku, en þau 5% sem neyta mest borða 330 grömm af sælgæti á viku, sem er eins og rúmlega þrjár súkkulaðiplötur.   

Ísneysla landans er óbreytt frá fyrri könnun og er um 12 grömm á mann á dag að meðaltali, sem samsvarar einum litlum ís úr vél á viku. Um 18% þátttakenda borðuðu ís á skráningardögunum tveimur.

Neysla á sætabrauði, kexi og kökum helst óbreytt frá síðustu könnun, 311 grömm á viku. Konur borða almennt aðeins meira af þessum vörum en karlar og mesta neyslan er hjá elsta aldurshópi kvenna (60–80 ára). Ekki er munur á neyslu milli aldurshópa hjá körlum.

Mynd 15. Dreifing og meðaltal neyslu á sætabrauði, kexi og kökum 2019–21
Um helmingur þátttakenda neytti a.m.k. 267 gramma af sætabrauði, kexi og kökum á viku. Það samsvarar um 27 smákökum. Hér var einnig mikill breytileiki milli einstaklinga; 13% borðuðu aldrei sætabrauð, kex eða kökur samkvæmt tíðnispurningalista. Þau 5% sem neyttu mest borðuðu a.m.k. 700 grömm af sætabrauði, kexi og kökum á viku, sem samsvarar neyslu á tveimur og hálfum stórum snúð úr bakaríi. Hér var ekki hægt að gera samanburð við fyrri könnun.