Orka og orkugefandi næringarefni

Landskönnun á mataræði Íslendinga 2019–2021

ORKA OG ORKUGEFANDI NÆRINGAREFNI

Orka og orkuefnin prótein, fita, kolvetni, sykur, trefjaefni (grömm) og alkóhól eru birt í töflunni hér fyrir neðan sem hlutfall af heildarorku (%E) og borin saman við gildin frá 2010–2011.

Orkuinnihald fæðunnar er svipað og í síðustu könnun, eða 2044 kkal á dag að meðaltali. Eins og við mátti búast fá karlar 25% meiri orku úr fæðunni en konur, eða 2280 kkal í samanburði við 1827 kkal. Þá fá yngri karlar um 25% meiri orku en elstu karlarnir, eða 2546 kkal í samanburði við 2023 kkal. Um 16% heildarorkunnar kemur úr sykruðum gos- og svaladrykkjum, sælgæti, kökum og kexi.

1Drykkir, nema mjólkurvörur: Gos- og svaladrykkir ásamt íþrótta og orkudrykkjum, hreinum söfum, jurtadrykkjum og áfengi.
2 Kartöflur (3%), fiskur og annað sjávarfang (3%), grænmeti (2%), egg (2%), snakk (2%) o.fl.
3 Annað feitmeti er smjörlíki, smjör og smjörvörur.
Mynd 16. Hlutfallslegt framlag fæðuflokka til heildarorku

 

PRÓTEINNEYSLA STENDUR Í STAÐ

Prótein gefa um 18% heildarorkunnar að meðaltali, sem er svipað og í síðustu landskönnun. Samkvæmt ráðleggingum um mataræði er æskilegt að próteinneysla sé á bilinu 10–20% af heildarorkunni.

Þeir sem fá minnst af próteinum úr fæðunni eru samt sem áður vel yfir ráðleggingum, hvort heldur miðað er við grömm á hvert kíló líkamsþyngdar eða hlutfall orku. Samkvæmt þessu er prótein ríflegt í fæði Íslendinga.

Mynd 17. Dreifing og meðaltal á hlutfalli orku úr próteinum 2010–11 og 2019–21
Helmingur þátttakenda fékk 18% af orkunni eða meira úr próteinum á dag árin 20192021. Þau 5% sem fengu lægsta hlutfall úr próteinum fengu 14% orkunnar eða minna úr próteinum, enginn þó lægra en 10%. Þau 5% sem fengu hæsta hlutfall úr próteinum fengu a.m.k. 24% orkunnar úr próteinum.

Karlar fá meira af próteinum í grömmum talið en konur, eða að meðaltali 104 grömm á dag en konurnar um 76 grömm. Munurinn er þó ekki mikill á milli kynja og aldurshópa þegar próteinneyslan er reiknuð sem hlutfall af orku.  

1Grænmeti (3%), egg og eggjavörur (3%), kökur og kex (3%), næringardrykkir og próteinvörur (2%), drykkir (2%) o.fl. 
Mynd 18. Hlutfallslegt framlag fæðuflokka til neyslu á próteinum

FITUNEYSLA HEFUR AUKIST

Íslendingar borða fituríkara fæði nú en í síðustu landskönnun. Fita gefur nú að meðaltali um 41% orkunnar í samanburði við 36% í síðustu könnun. Samkvæmt ráðleggingum um mataræði eru æskileg mörk fituneyslu 25-40% orkunnar. Nú veita einómetttaðar fitusýrur að meðaltali 12% heildarorkunnar og fjölómettaðar fitusýrur að meðaltali 7% heildarorkunnar. Ráðlagt er að um 10–20% heildarorkunnar komi frá einómettuðum fitusýrum og um 5–10% heildarorkunnar frá fjölómettuðum fitusýrum.

Mynd 19. Dreifing og meðaltal á hlutfalli orku úr fitu 2010–11 og 2019–21
Helmingur þátttakenda fékk 41% af orkunni eða meira úr fitu á dag árin 20192021. Þau 5% sem fengu lægst hlutfall úr fitu fengu 32% orkunnar eða minna úr fitu, enginn þó lægra en 24%. Þau 5% sem fengu hæsta hlutfall úr fitu fengu a.m.k. 49% heildarorkunnar úr fitu.

Í grömmum talið borða karlar að meðaltali meiri fitu (106 grömm á dag) en konur (86 grömm á dag), en hlutfall fitu af heildarorku er það sama hjá kynjunum. Eldri hóparnir (40–80 ára) borða fitumeira fæði en yngsti hópurinn. Fitan kemur aðallega úr feitmeti, svo sem olíum, smjöri og smjörvörum (21%), kjöti og kjötvörum (14%), kornvörum, brauði og kökum (13%), mjólk og mjólkurvörum (12%) og ostum (11%).

Neysla á mettaðri fitu er einnig á uppleið

Neysla á mettaðri fitu hefur aukist og gefur nú 16% orkunnar samanborið við 14% í síðustu landskönnun. Samkvæmt ráðleggingum er talið æskilegt að neyslan fari ekki yfir 10% af heildarorku, en innan við 2% landsmanna ná því viðmiði.

Mynd 20. Dreifing og meðaltal á hlutfalli orku úr mettaðri fitu 2010–11 og 2019–21
Helmingur þátttakenda fékk 16% eða meira af orkunni úr mettaðri fitu á dag 20192021. Þau 5% sem fengu lægst hlutfall af mettaðri fitu fengu 12% orkunnar eða minna úr mettaðri fitu. Þau 5% sem fengu hæsta hlutfall úr mettaðri fitu fengu a.m.k. 21% orkunnar úr mettaðri fitu.

Þó að karlar borði að meðaltali meira af mettaðri fitu í grömmum talið (42 grömm á dag) en konur (35 grömm á dag) er hlutfall mettaðrar fitu af heildarorku svipað hjá báðum kynjum. Eldri hóparnir (40–80 ára) neyta meira af mettaðri fitu en yngsti hópurinn.

1 Sósur, súpur og áleggssalöt (4%), kornvörur, aðrar en kex og kökur (3%), ís (2%), flögur og poppkorn (2%), egg og eggjavörur (2%), hnetur og fræ (1%) o.fl.
2 Annað feitmeti er smjörlíki, smjör og smjörvörur.
Mynd 21. Hlutfallslegt framlag fæðuflokka til neyslu á mettaðri fitu

 

KOLVETNANEYSLA ER Á NIÐURLEIÐ

Kolvetnaneysla er minni en í síðustu landskönnun, að hluta til þó vegna minni sykurneyslu. Kolvetni gefa nú að meðaltali 37% af heildarorku en gáfu 42% orkunnar í síðustu landskönnun. Í ráðleggingum er mælt með að 45–60% orkunnar komi úr kolvetnum, og þá fyrst og fremst úr grófu korni, ávöxtum og grænmeti. Gæði og uppruni kolvetna skipta miklu máli fyrir hollustugildi þeirra. Í því samhengi má nefna að viðbættur sykur sem hlutfall af heildarorku hefur einnig minnkað milli kannanna, en hann flokkast sem kolvetni.

Mynd 22. Dreifing og meðaltal á hlutfalli orku úr kolvetnum 2010–11 og 2019–21
Helmingur þátttakenda fékk 37% eða meira af orkunni úr kolvetnum á dag 2019–2021. Þau 5% sem fengu lægst hlutfall úr kolvetnum fengu 27% eða minna af orkunni úr kolvetnum. Þau 5% sem fengu hæst hlutfall úr kolvetnum fengu a.m.k. 48% orkunnar úr kolvetnum.

Þó að karlar borði að meðaltali meira af kolvetnum í grömmum talið (207 grömm á dag) í samanburði við konur (169 grömm á dag) er hlutfall kolvetna af heildarorku svipað á milli kynja. Yngsti hópurinn borðar mest af kolvetnum og eru það ungar konur (18–39 ára) sem fá mest af orkunni úr kolvetnum, eða 41%, á meðan elstu karlar (60–80 ára) fá minnst, eða 35%.

NEYSLA Á TREFJAEFNUM MÆTTI VERA MUN MEIRI

Meðalneysla á trefjaefnum hefur heldur minnkað frá síðustu könnun og er tæplega 16 grömm á dag. Samkvæmt ráðleggingum um mataræði er mælt með 25-35 grömmum af trefjaefnum á dag miðað við 2400 kkal fæði. Lítil trefjaefnaneysla endurspeglar lítil gæði kolvetna í fæði Íslendinga, og þá sérstaklega litla neyslu á heilkornavörum, auk grænmetis og ávaxta.

Mynd 23. Dreifing og meðaltal neyslu á trefjaefnum 2010–11 og 2019–21
Helmingur þátttakenda neytti meira en 15 gramma af trefjaefnum á dag árin 2019–2021. Þau 5% sem neyttu minnst af trefjaefnum neyttu minna en 9 gramma á dag en þau 5% sem neyttu mest af trefjaefnum neyttu meira en 25 gramma á dag.

Ekki var munur á neyslu á trefjaefnum milli kynja, en hjá körlum borðar yngsti aldurshópurinn (18–39 ára) meira af trefjaefnum en þeir eldri.

1 Flögur og poppkorn (4%), drykkir, nema mjólkurvörur (3%), hnetur og fræ (3%), baunir (2%) o.fl.  
Mynd 24. Hlutfallslegt framlag fæðuflokka til neyslu á trefjaefnum

 

VIÐBÆTTUR SYKUR ER Á NIÐURLEIÐ

Viðbættur sykur sem hlutfall orku hefur minnkað úr 9% í 7%, en samkvæmt ráðleggingum er æskilegt að viðbættur sykur gefi aldrei meira en 10% orkunnar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) telur þó að enn frekari takmarkanir geti verið til bóta og Matvælaöryggisstofnun Evrópu sömuleiðis (EFSA). Viðbættur sykur er hreinn sykur, t.d. hvítur sykur, hrásykur, púðursykur og ávaxtasykur sem bætt er í vöru við framleiðslu, en ekki náttúrulegur sykur eins og mjólkursykur og ávaxtasykur sem er til staðar í matvörunni. Hér er þó vert að taka fram að líklega er um eitthvert vanmat að ræða. Bæði eru þátttakendur tregari til að segja frá og/eða gleyma einstaka matvælum sem neytt er á milli mála. Þar að auki sýna fæðuframboðstölur mun hærri tölu fyrir sælgæti eða 50 grömm á dag, en niðurstöður landskönnunar eru 18 grömm á dag. Það sama á ekki við um aðra fæðuflokka.

Mynd 25. Dreifing og meðaltal á hlutfalli orku úr viðbættum sykri 2010–11 og 2019–21
Helmingur þátttakenda fékk meira en 6% af orkunni úr viðbættum sykri á dag árin 2019–2021. Þau 5% sem fengu lægst hlutfall úr viðbættum sykri fengu minna en 2% orkunnar úr viðbættum sykri. Þau 5% sem fengu hæsta hlutfall úr viðbættum sykri fengu a.m.k. 15% orkunnar úr viðbættum sykri.

Í heildina fá um 20% þátttakenda meira en 10% orkunnar úr viðbættum sykri. Talsverður munur er á milli aldurshópa. Þau 5% þátttakenda sem neyta mest fá meira en 19% orkunnar úr viðbættum sykri, og eru það yngstu aldurshópar beggja kynja.

Þó að karlar borði að meðaltali meira af viðbættum sykri í grömmum talið (43 grömm á dag) í samanburði við konur (36 grömm á dag) er hlutfall viðbætts sykurs af heildarorku svipað á milli kynjanna. Hjá yngstu aldurshópunum (18–39 ára) hjá báðum kynjum kemur hærra hlutfall orkunnar úr viðbættum sykri en hjá þeim eldri.

1 Ís (4%), niðursoðnir ávextir og sulta (4%), kornvörur (4%), sósur, súpur (3%) o.fl.
Mynd 26. Hlutfallslegt framlag fæðuflokka til neyslu á viðbættum sykri

NEYSLA Á ALKÓHÓLI SEM HLUTFALL AF ORKU STENDUR Í STAÐ

Neysla á alkóhóli sem hlutfall af heildarorku stendur í stað á milli kannana og er um 2% að meðaltali. Þau 5% sem fengu hæsta hlutfallið úr áfengi fengu a.m.k. 8,5% orkunnar úr áfengi. Karlar drekka meira en konur, en samkvæmt tíðnispurningalista er breytileiki milli einstaklinga mikill. Þannig sögðust 58% drekka áfengi 1–3 sinnum í mánuði eða aldrei, 28% 1–2 sinnum í viku en 14% þrisvar til fjórum sinnum í viku eða daglega.