Landskönnun á mataræði Íslendinga 2019–2021
NÆSTU SKREF – SAMANTEKT OG LOKAORÐ
Holl og fjölbreytt fæða er mikilvæg fyrir heilsu og vellíðan og getur dregið úr líkum á langvinnum sjúkdómum, snemmbærum dauðsföllum og glötuðum góðum æviárum. Niðurstöður landskönnunar frá 2019 til 2021 eru bornar saman við ráðleggingar um heilsusamlegt mataræði, RDS og niðurstöður sambærilegrar rannsóknar sem fór fram árin 2010–2011. Niðurstöðurnar sýna meðal annars að hluti landsmanna fær ekki nóg af öllum nauðsynlegum næringarefnum og að neysla á grænmeti hefur staðið í stað frá síðustu könnun en ávaxtaneysla hefur minnkað.
Niðurstöðurnar benda einnig til þess að vert væri að beina athyglinni sérstaklega að yngstu aldurshópum kvenna og karla sem tóku þátt í rannsókninni (18–39 ára). Konur í þessum aldurshópi (á barneignaraldri) fá síður nóg af mikilvægum næringarefnum á borð við járn, joð, C-vítamín og fólat. Að auki er D-vítamínneysla þeirra að jafnaði undir ráðlagðri neyslu líkt og hjá ungum karlmönnum, sem er sá hópur sem minnst fær af D-vítamíni.
Eins sjást vísbendingar um að mataræði landsmanna sé að breytast nokkuð og má þar nefna minni neyslu á trefjum og aukna neyslu á mettaðri fitu frá því síðasta könnun var gerð fyrir um 10 árum. Mikilvægt er að fylgjast vel með þessari þróun. Nauðsynlegt er að afla frekari upplýsinga um það hvaða áhrif þessar breytingar á mataræði hafa á heilsufar þjóðarinnar. Það má til dæmis gera með mælingum á styrk blóðfitu, blóðsykurs og blóðþrýstings ásamt því að framkvæma mat á næringarástandi þjóðarinnar með mælingum á styrk næringarefna í líkamanum (t.d. D-vítamíns, joðs, járns).
Ásamt því að fá betri yfirsýn yfir næringarástand og sjúkdóma meðal þjóðarinnar þarf að tryggja fjármögnun og virkja aðgerðaáætlanir og stefnur sem hafa verið gefnar út með það að markmiði að efla lýðheilsu í landinu. Má þar nefna aðgerðaáætlun um beitingu efnahagslegra hvata til eflingar lýðheilsu, Matvælastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 og Innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila. Mikilvægt er að styðja vel við landsmenn með heilsueflandi nálgunum hjá samfélaginu í heild sinni, vinnustöðum og skólum og skapa þannig umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum.
Einnig er mikilvægt að nefna að fjöldi landsmanna heimsækir heilsugæsluna árlega, bæði vegna misalvarlegra veikinda en líka til að koma í meðgöngu- og ungbarnavernd. Auk þess er heilsueflandi móttaka starfrækt hjá heilsugæslunni þar sem markmiðið er að veita heildræna heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða og einstaklinga með fjölþættan og/eða langvinnan heilsuvanda. Hér felast mikil tækifæri til að miðla traustum upplýsingum um mataræði, sem byggja á nýjustu stöðu þekkingar, þar sem sérfræðingar geta tekið mið af mismunandi næringarþörfum háð aldri og aðstæðum og gefið ráðleggingar í samræmi við það.
Íslenskar ráðleggingar um mataræði verða endurskoðaðar á næsta ári í kjölfar þess að nýjar norrænar næringarráðleggingar verða birtar. Niðurstöður úr þessari landskönnun verða nýttar í þá vinnu. Að lokum viljum við þakka þeim sem tóku þátt í rannsókninni um mataræði Íslendinga fyrir að veita upplýsingar um mataræði sitt. Niðurstöðurnar nýtast á margan hátt og veita mikilvæga innsýn í stöðu mála.